Sunday, January 28, 2007

Myndamaður

Pabbi var að benda mér á það að bærinn sem ég er að fara að búa í er bara 25 km frá miðbaug (sem er tæplega vegalengdin frá MH út á Kjalarnes). Það þýðir að í kringum hádegi þann 21. mars (og líklega einnig dagana í kring) mun ég ekki mynda neinn skugga. Sólin verður beint yfir kollinum á mér.
Það finnst mér svalt..


Já, svo var ég að rekast á síðuna hans Noah Kalina:






Þessi maður hefur tekið mynd af sér á hverjum degi í 7 ár. Hérna er hægt að sjá síðastliðna 6 mánuði.
Það finnst mér merkilegt..

(15 dagar)

Saturday, January 20, 2007

Ókei, kominn tími á smá lélega stærðfræði.

  • Í dag er tæknilega 20. janúar (klukkan er hálf þrjú að nóttu til)
  • Þegar mánaðardagarnir eru orðnir tveggja stafa tala sem byrjar á 2 eða 3 er mánuðurinn alveg að verða búinn og næsti mánuður er eiginlega bara svo til byrjaður.
  • Ég fer 12. febrúar, sem er eiginlega svona alveg í byrjun febrúar (ef maður er ótrúlega lélegur í stærðfræði og hundsar þá staðreynd að það eru bara 28 dagar í febrúar)
  • Þannig að ég er í rauninni bara að fara rétt strax!


..Dæmalaust alveg hvað tíminn getur liðið hratt.

Sunday, January 7, 2007

Aðgerðarleysi

Ég er ekki í skóla, og ég er atvinnulaus. Það hljómar fyndið.
Á morgnana þegar hinir krakkarnir smella á sig skólatöskunum, setja upp gleraugun og hlusta á kennara kenna, þá er ég sofandi. Ég sef skringilega og ekki sérlega mikið, en samt finnst mér ég alltaf vera sofandi. Þegar ég er ekki sofandi liggur í mér þessi stöðuga sektartilfinning sem ýtir á mig að sinna heimanáminu. Tilfinning sem hefur verið alin upp í mér frá því í svona.. fjórða bekk. Ég var hinsvegar orðin afbragðsgóð í að hundsa þessa tilfinningu, alveg þangað til hún náði í skottið á mér í lok hverrar annar -í desember varð hún sterkari en nokkru sinni áður og er ennþá að naga mig í bakið. Líkaminn er svo ótrúlega vanur þessu að þótt ég viti sjálf að það hangi engin verkefni yfir mér, er samviskubitið orðin rótgróinn undirtónn í flestum vökustundum mínum.

Það sem ég geri á daginn:

Prjóna
Spila á selló (ég myndi líkja sellógetu minni við getu fimm ára barns)
Spila á gítar
Spila á þverflautu
Spila á blokkflautu
Spila á panflautu
Spila á hljómborð (eldgamla casio gaurinn)
Spila á sílafón
Tölvast
Sjónvarpast
Ekkert

Ég vorkenni rosa mikið fólkinu í húsinu mínu því ég er hreinræktaður glamrari.


Ég ætla samt að reyna að bæta við "Nota tannþráð" á listann. Tannlæknirinn minn var nefnilega að segja mér það að ég er komin með skemmd. Ég hef aldrei fengið skemmd áður og því hræðist ég 19. janúar af öllu afli. Ef einhver vill koma með hugreystandi tannlæknasögur verð ég mjög glöð. Ef einhverjum finnst fyndið að hræða mig meira verð ég leið.

Thursday, January 4, 2007

Upphafið

Jæja. Það fer að líða að þessu. Hér höfum við fyrstu færsluna á þetta svæði sem mun gegna því hlutverki að tengja mig við umheiminn, ykkur.. Íslendingana mína. Ef ætlunarverkið heppnast og ég stend mig, þá eigið þið eftir að getað lesið hér um líf mitt og ævintýr í henni Suður Ameríku. Ég er rosalega mikið að treysta á það að ég hafi einhvern aðgang að tölvum þarna í bænum mínum. Það getur ekki annað verið en að það reddist, ef enga tölvu verður að finna í húsinu mínu.
En það eru semsagt 39 dagar í það að ég haldi af landi brott. Ég flýg frá Keflavík til New York þann 12. febrúar. Flugið mitt til Ekvador fer þó ekki fyrr en þann 14., svo ég fæ að gista hjá Gauta og Helimu (bróður Völu mágkonu og konunni hans) þessar tvær nætur. Ég er mjög spennt fyrir New York, þótt ég nái tæpast að drepa niður fæti áður en ég þarf að halda áfram. Eftir stutta viðkomu í Houston lendi ég í Quito, höfuðborg Ekvador, þar sem ég gisti nóttina áður en haldið verður til Otavalo, bæjarins míns, 0,13° norðan við miðbaug. Í Otavalo búa mestmegnis frumbyggjar Ekvador, en hann er víst líka eitthvað frægur fyrir risastóra markaðinn sem hefur verið þar frá því fyrir tíma inkanna.

Fyrir þá sem enn eru óvissir á tilgangi þessarar ferðar, þá er ég að fara sem sjálfboðaliði á vegum samtakanna Cielo Azul. Ég er semsagt að fara að kenna ensku í einhverjum af þeim mörgu undirmönnuðu og fátæku skólum sem eru þarna á svæðinu. Mamma og pabbi (sem eru meira en lítið stressuð yfir þessu öllu saman) eru þó búin að vera að reka nettan hræðsluáróður hérna heima síðustu dagana. Þau hafa verið að gantast með það að þetta gæti nú bara allt eins verið eitt heljarstórt svindl og peningaplokk, pabbi nefndi það meira að segja hvað það væri nú fyndið ef að ég kæmi loks til Otavalo, og þar væri ekkert. En ég læt þetta sem vind um eyru þjóta.
..ef þau hefðu í hyggju að ræna mig, þá væri þetta ekki frítt!

Hér með lýkur fyrstu færslu Salóme

E.s. Nafnið salómelóme kemur úr óperu sem samin var um mig í Grikklandi. Ég hvet aðra til að gera slíkt hið sama (semja um mig óperur).