Thursday, March 22, 2007

Sólbruni

Ég er orðin hard kor indígena. Í gær voru karlmennirnir að plægja akurinn. Ég arkaði til þeirra með brauð, baunir og maís bundið á bakið, vefjarhött (sólin er núna beint á kollinum á manni. Engir skuggar, jibbí!), og staf í hönd vegna þess að ég var að reka á undan mér hóp af kindum. Leiðin að akrinum er mjög erfið. Maður labbar í gegnum kornakra og aur og allt í svo geðsjúkum halla að það er erfitt að halda jafnvægi. Þess vegna var ég berfætt, gerir það auðveldara að fóta sig. Ég datt. Þegar ég kom á akurinn sem er falinn inn í djúpum dal, sá host-mamma mín að ég hafði skrapað upp á mér olnbogann. Hún reif samstundis burt alla lausa húð og sagði: "Ég ætla að láta kanchigis á sárið, það er græðandi." Jújú, sagði ég.. skildi ekki hvað það var en gerði ráð fyrir að það væri einhver jurt. En neinei, stingur konan ekki hendinni inná blússuna, vippar út vinstra brjóstinu, og mjólkar sig yfir hendina mína. það er ekki margt lengur sem ég kippi mér upp við hérna. En þessu bjóst ég ekki við.
Svo plægði ég akrana með mönnunum og nokkrum konum. Það var rosa vinna, sérstaklega af því það var steikjandi hiti og sólin á hæsta punkti. Ég þurfti líka virkilega að taka mig á í geitungahræðslu þegar ég þurfti að fara að bera illgresishrúgur af akrinum og yfir í risastóran haug. Ég spurði Dolores (brjóstakonuna) hvaða hljóð þetta væri eiginlega. Einhverskonar ymur sem lét manni klæja í eyrun.. Hún sagði mér að þetta væru geitungarnir að hlæja. Þeir mega alveg hlægja fyrir mér, bara ekki í hrúgunum sem ég þarf að halda á.
Sjáðu fyrir þér hrúgu af illgresi. Í hrúgunni eru sveimandi tíu til tuttugu geitungar. Þú þarft að stinga höndunum þarna inn, lyfta þessu upp, og rogast með það dálítinn spöl. Svo þarftu að henda því á þá tugi geitunga sem sveima um í stóru hrúgunni.
Úff.

Á sunnudaginn var skírn. Það var verið að skíra níu mánaða dóttur fólksins sem ég bý hjá, og ellefu mánaða sonarson þeirra. Þetta var fyrsta Evangelíska messan sem ég fer í. Spes, mikið sungið, rosa módern, rosa falskt. Plast-garðstólar og gítar. Allavegana þá tók ég eftir því að út í horni við altarið lá strigapoki. Þegar verið var að skíra börnin tók pokinn að hreyfast öðru hvoru, meira og meira, þangað til allt í einu hann stóð upp og kjagaði fram á kirkjugólfið. Kona kom hlaupandi og fjarlægði pokann, kom stuttu seinna með nýjan og lét hann í þetta skiptið við fætur prestsins sem var nú að skíra seinna barnið. Við fórum áður en ég sá hver yrðu afdrif þess sem í pokanum var. Svín eða lamb. Fórn? ..vonum ekki.

Ó já, svo var veisla eftir á. Ég fékk baunir, ananaskartöflu* og lambslunga. Afþakkaði naggrísinn. Kannski seinna.
*Kartafla á stærð við ananas. Ég eyddi morgninum sitjandi á fötu í hefðbundnum búningi frumbyggjanna að flysja þessar kartöflur ásamt nokkrum tannlausum konum. Ólíkt heima, þá er ástæðan fyrir því að þau flysja kartöflurnar hérna sú að þá getur maður séð hvar maðkarnir eru og skorið þá burt.
Gömlu konurnar hérna eru snillingar. Ef aðeins ég talaði kichwa.



Það er ein setning sem kemur í kollinn á mér hvað eftir annað. Oftast þegar ég ligg í hengirúminu mínu, ligg í grasinu að borða karamelluepli eða dáist að útsýninu á fleygiferð í þaklausum vörubíl: Ég er ótrúlega ánægð með lífið mitt akkúrat núna.

Saturday, March 3, 2007

Gaggalagú

Á miðvikudaginn var fyrsti kennsludagurinn minn í skólanum. Hinar kennskukonurnar drápu fjórar hænur og suðu úr þeim súpu mér til heiðurs. Hjálp. Ég fékk æluna upp í kok þegar ég sá sundurtætta líkamspartana fljóta um í súpunni. Úff. Ég reyndi að útskýra blíðlega fyrir þeim að ég væri grænmetisæta. Það hitti ekki í mark. Þetta væru hænur úr sveitinni, lostæti. Ég klemmdi aftur augun og rétti fram diskinn. Sat svo með sundurtættan legg í kjöltunni, illa reyttann.. fjöður á stangli, og lít út á skólalóðina þar sem einn hani og tvær hænur voru á vappi. -Voru þær ekki fleiri í gær? Konurnar brosandi að hakka í sig, ein tyggur fót, bendir hlæjandi á hænsnin og segir; "Ví ít this!"

Paolo var að fá sjónvarp, í lit! Á fimmtudagskvöldið söfnuðumst við öll saman inn í herberginu hans, horfðum á ekvadoríska sápuóperu og tuggðum sykurreyr.