Sunday, April 29, 2007

Myndir

Kominn tengill fyrir myndirnar mínar! Njótið :)

-Shalom

Tuesday, April 24, 2007

Lloa - Mindo ævintýr

Jáh, verð greinilega að bíða með að koma inn myndum.. En já. Ég fór í þriggja daga göngu þarsíðustu helgi með sex öðrum sjálfboðaliðum. Við vorum sko hard kor. Með tuttugu kílóa bakpoka og tjöld á bakinu lögðum við af stað frá litlu fjallaþorpi, Lloa, inn í fjallgarðinn. Ferðin hófst í tæpum 11,000 fetum og við sáum fátt vegna þess að skýjin umluktu okkur nánast allan tímann. Við gengum meðfram fjallinu , og leiðin lá niður. Ferðinni var heitið niður í 4,000 fet til bæjar sem heiti Mindo. Smám saman tók gróður að vaxa meðfram veginum sem við gengum, og umhverfið varð hlýlegra. Við gengum í nokkrar klukkustundir áður en á okkur lenti hellidemba, og við ákváðum að láta þetta gott heita fyrir daginn. Við fundum stað til að tjalda á hjá niðurrifnu húsi sem leit ágætlega út. Þurftum reyndar að berja af okkur nokkur lamadýr sem kom í ljós að bjuggu þarna. Undir lok dagsins vorum við samt blessunarlega orðin ágætir vinir, menn og lamadýr. Nóttin var gullfalleg þarna, allt upplýst af eldflugum hvert sem litið var og himinninn heiðskýr og stjörnubjartur. Morguninn eftir vöknuðum við við að sólin kom upp um sexleitið. Borðuðum morgunmat (brauð og túnfiskur í öll mál), og héldum í hann aftur. Þennan dag var mikið gengið og umhverfið breyttist á örskotsstundu úr hálendi í frumskóg. Laufblöðin á trjánum urðu meiraðsegja nógu stór til að fela sig á bak við þegar kom að pissupásum. Skordýrin urðu ótrúlega exótísk, og ég sá margar verur sem ég man bara eftir að hafa séð í dýralífsbókunum hans Grétars þegar ég var lítil.
Við lentum þó í ýmsum hindrunum á leiðinni. Kom í ljós að leiðarlýsingin sem við vorum að fara eftir var tíu ára gömul, og margt hafði breyst síðan þá.. og þá allra helst árfarvegir. Við þurftum að vaða yfir margar ár á nærbuxunum með bakpokana á hausnum, en þegar við komum að einni um hádegisbil, varð okkur ljóst að sú aðferð væri úrelt. Áin var allt of vatnsmikil, og engin leið yfir. Þegar við stóðum og göptum á þetta, veltum fyrir okkur hvort við þyrftum að snúa við, varð á vegi okkar gamall maður sem var ekkert smá glaður (og hissa) að sjá hvítt fólk á ferðinni. Hann skaust í burtu, og kom til baka stuttu seinna með tvo múlasna. Nett smeyk, ákváðum við að þetta þyrfti samt að vera það besta sem við gætum gert í stöðunni. Það væri annaðhvort þetta, eða að snúa við. Við festum bakpokana okkar á einn múlasnann, tvo og tvo í senn, og fórum, eitt og eitt, yfir á hinum múlasnanum. Það kom í ljós að við hefðum aldrei komist yfir án þessa, því jafnvel múlasnarnir voru nærri falli á leiðinni yfir. Þegar þessu var loksins lokið önduðum við léttar, vinkuðum manninum bless, og bundum fimm dollara við annan múlasnann áður en við sendum þá yfir til eigandans síns (sem varð yfir sig ánægður).
Jæja, svo ætluðum við að halda göngunni áfram, en komumst eftir mikla leit og vesen að því að slóðinn var nokktum metrum fyrir ofan okkur. Við enduðum þessvegna á því að þurfa að klifra eitt stykki klettavegg, koma okkur vel fyrir í þverhnípinu, og færibanda bakpokunum upp.

Eftir þetta tók slóðinn að verða óljósari, því við gengum beint inn í frumskóginn og allt varð dimmt og rótgróið. Þar endaði ég á að leiða hópinn með trjágrein í hendi sem ég þurfti að sveifla fyrir framan mig allan tímann til að rífa niður köngulóavefina sem voru við hvert fótmál. Talandi um að þurfa að losa sig við pempíuskap. Á endanum var ég orðin það hörð að ef ég sá risastórt grænt, gult, rautt blátt eða marglitað kvikindi skríða niður eftir handleggnum á mér, var því bara dustað af án minnstu hræðsluviðbragða. (bújaggasjei!).
Frumskógurinn fór síðan að verða drullugari og drullugari, og síðustu tvo tíma dagsins vorum við öll vaðandi í leðju uppfyrir hné. Stígvélið hennar Jóhönnu og sandalinn minn urðu bæði eftir í kviksyndi -engar áhyggjur mamma, það var ekki nógu djúpt til að gleypa okkur heil. En það var fyndið að brölta upp úr því (láta toga sig öllu heldur).
En eftir einn tíma af drulluvaði kom regnskógarigningin af fullum krafti. Þeir partar af okkur sem enn voru þurrir rennblotnuðu á örskotsstundu. Í rigningunni gengum við í rúman klukkutíma, því hvergi var hægt að tjalda, og við höfðum ekki séð hús síðan um morguninn. Þegar myrkrið var að leggjast yfir gengum við loksins fram á stórt hlið með gaddavírsgirðingu allt um kring. Hinum megin komum við auga á hús, og hugsuðum okkur ekki um tvisvar, heldur stukkum yfir hliðið til að biðja um gistingu. Við komumst hinsvegar fljótt að því að þarna var enginn, en staðurinn var algjör paradís. Viðarhús með risastórri verönd þar sem við flýttum okkur úr blautu fötunum, og hlýjuðum okkur í svefnpokunum á meðan við gæddum okkur á túnfisk og hörðu brauði. Það var yndislegt að vera húsatökumaður.

Við vöknuðum rétt fyrir fimm morguninn eftir. Þriðji og síðasti dagurinn, og margir kílómetrar eftir. Það var ennþá niðamyrkur þegar við pökkuðum saman tjöldunum, stungum blautu fötunum og svefnpokunum í risabakpokana og borðuðum morgunmat (brauð og túnfisk..). Þegar birtan fór að læðast in skrifuðum við þakkarbréf til eiganda hússins og skildum eftir fimm dollara til að lækna samviskubitið. Í morgunhúminu héldum við svo af stað, og fundum skyndilega öll fyrir því að við höfðum verið að ganga síðustu tvo dagana. Harðsperrurnar voru gífurlegar, svo við tölum ekki um hælsærin og blöðrurnar sem voru búnar að myndast á flestum fótum. Við höltruðum í gegnum fyrsta hálftímann, en svo fóru fæturnir að átta sig á því að þessu væri ekki lokið enn, og geymdu sársaukann fyrir okkur. Við vorum núna farin að ganga meðfram einni ánni mestallan tímann, en þess á milli eltum við gömul hófaför í jörðinni, því sjaldnast var greinilegur slóði að fylgja. Veðrið var æðislegt og við sungum gömul kántrílög af fullum krafti.
Þegar við komum yfir eina ána löbbuðum við smáspöl áður en hófaförin skyndilega hurfu. Það hljómar kannski ekki svakalega, en þetta þýddi að nema við gætum fundið slóða eða för, værum við týnd. Það var ekki gott. Við settumst niður uppgefin á eyju í miðri ánni og borðuðum meiri brauð og túnfisk.. Svo var farið að leita. Um hálftíma seinna heyrum við Peter kalla uppfyrir sig: Hófaför! Við fylgdum þessum förum hikandi, en sáum svo að smám saman birtist þessi fíni slóði fyrir framan okkur og við fögnuðum eins mikið og við höfðum orku til. Nú vorum við hinsvegar komin í tímaþröng svo við sprettum úr spori. Slóðinn brekkaði og frumskógurin færði sig þartil við vorum að ganga á grösugu engi. Þá sáum við nokkuð sem fékk okkur öll til að kalla uppfyrir okkur: Manneskja! Ég sé manneskju! Við veifuðum og hlupum til mannsins sem var ásamt öðrum manni að byggja brú yfir ánna sem við höfðum verið að labba meðfram lengi. Hann var nett hissa, en sagði okkur að við værum á réttri leið, og leyfði okkur að fara yfir "brúna" sem var bara hálfbyggð. Hinum megin tók við okkur alvöru malarvegur, og brátt fórum við að sjá fólk ríða hjá á múlösnum, og hús tóku að birtast við veginn.
Núna fór þreytan hinsvegar að segja til sín. Fætur sumra gátu ekki lengur haldið aftur af sársaukanum, og við hægðum á okkur. Við vorum samt enn í tímaþröng því að tjöldunum þurfti að skila fyrir klukkan fimm í Quito. Það endaði þannig að við skiptum okkur í tvo hópa; hraða og hæga. Hægi var fólkið sem gat ekki fengið fæturnar sína til að virka mikið lengur, og við fórum fjögur í hraða hópnum með það að markmiði að koma tjöldunum til Quito sem allra fyrst. Þá tókst mér meðal annars að detta kylliflöt í drullupoll, en enginn tími til að þrífa sig, halda áfram.
Undir lokin, eftir að hafa tekið ranga beygju og labbað hálftíma í burtu frá áfangastað, og eftir að hafa gengið upp fjallið endalausa, vorum við öll úrvinda. Af einskærri heppni fengum við loks far hjá kólumbískum manni á pallbíl, sem hraðaði okkur í bæinn.

Þetta endaði svo allt á yndislegri súkkulaðiköku í Quito: Sjö, illa lyktandi, drullug, og útsogin af blóðsugum. Alsæla!

sí jah! -Shalom

Tuesday, April 17, 2007

Bloggí

Ég ætla að blogga um frumskógarferðina mína þegar ég er komin með myndir til að hafa memm.

..líklega um helgina

Pís át!

Saturday, April 7, 2007

Canoa og brimið.

Ég hef tvisvar farið á netkaffihús síðan síðasta færsla var birt. Í bæði skiptin talaði ég við mömmu og pabba svo lengi ókeypis á skæp að þegar samtölunum lauk var ég komin með ógeð á netinu, og vildi komast út í sólina, ég biðst forláts. Núna sit ég hinsvegar á kennara- foreldrafundi og skrifa þessa færslu í bók. (Og núna er ég að skrifa hana upp í tölvu á ströndinni). Mér finnst það góð tímanýting þar sem fundurinn fer nánast allur fram á kichwa, og framlag mitt því takmarkað við setningar á borð við: "Ég þvæ diskana" og "Ég er að fara til Otavalo".

Um daginn fórum við fjögur í heimsókn til Minas Chupa- samfélagsins sem Nicole (us) og Amelie (de) kenna í. Þar voru hátíðarhöld sem við tókum þátt í í tilefni dags konunnar. Spiluðum mikið blak í drullunni og ég fékk að vera í liði með forseta samfélagsins. Í öllum æsingnum tókst mér að segja hluti eins og "mister president!" og "Go! President! Go!". Á meðan við vorum að háma í okkur empanadas til að ná upp orkunni eftir "tryllta" ekvadoríska dansa tókum við eftir tónlist í pínu fjarlægð. Við sáum lítið vegna þokunnar (sem er nánast alltaf þarna, Minas Chupa er byggt í svokölluðum skýjaskógi) en við vorum forvitin og gengum á hljóðið. Þegar við komum nær sáum við þorpsbúa í einskonar skrúðgöngu. Sumir söngluðu, aðrir þögðu. Öll héldu þau á hænum. Fyrir þeim gengu menn með flautur, trumbur og fiðlur og spiluðu frekar drungalega tónlist. Skrúðgönguna leiddi þessi maður:

Það óhuggulegasta var þegar hann leit beint í augun á mér, og ég sá að augun á þessum gamla frumbyggja voru ísblá. Skrúðgangan fór langar leiðir, stoppandi öðru hvoru í dansi. Allir héldu um fæturnar á hænunum og dönsuðu með þær yfir höfði sér. Loks var komið á stað þar sem prestur stóð og blessaði hverja hænu fyrir sig áður en þeim var hlaðið á trukk. Okkur var samt að þetta væru gjafir til kirkjunnar.



..Núna sit ég á ströndinni í yndislegum hita og vellíðan. Síðustu tveir dagar hafa nánast allir farið í brimbrettakennslu á litlum brettum sem ég kýs að kalla aulabretti.. Þetta er friggin ass gaman! Svo skipti ég yfir og prófaði alvöru brimbretti. Og eftir það, þá held ég að ég neyðist því miður að flytja úr samfélaginu mínu á ströndina. Ég veit ekki hvort að sálin mín eigi eftir að ráða við það að prófa eitthvað svona skemmtilegt, og sjá því svipt frá sér jafnóðum.
Hér lifum við á ávaxtasafa og sjáfarfangi, sem er svo gott hérna að ég tárast. Ég er ennþá að skrifa þesa færslu í bók, því ég held að það sé ekki net í þessum bæ.

Ég fer heim í kvöld.