Vá, það liggur í augum uppi að ég er orðin ámánaðarfrestibloggari. Ég biðst afsökunar á því. Líklegast er þó að þessi afsökunarbeiðni berist aðeins til pabba míns sem er örugglega sá eini sem enn tékkar á þessu reglulega.
Allavegana, það hefur margt gerst, en þó ekki of. Ég fór til að mynda í tveggja vikna ferðalag. Nú hugsa margir: "Úú.. Kólumbía? Brasilía?" En nehei. Ég gaf bara skít í að reyna að vera svalur ferðalangur og skellti mér á sólarströnd til Spánar þar sem ég hitti fjölskylduna og við héldum upp á fimmtugsafmælið hans pabba. Já, maður er nú ekki meira hard kor en þetta.
Þessa vikuna er Inti Raymi (Sólarhátíðin) í fullu fjöri. Þetta er gömul Inka hefð sem táknar upphaf nýs árs og frumbyggjar Ekvador halda enn upp á þessi aldargömlu áramót. Hátíðarhöldin standa í níu daga, og hefjast á hreinsunarathöfninni; miðnæturbaði í Peguche fossinum sem er staðsettur inní einu elstu samfélaganna í kringum Otavalo. Við Nicole hin Bandaríska fórum þangað ásamt vinum okkar frá Otavalo. Frumbyggjarnir ferðast í skrúðgöngum að fossinum sem eru meira einsog herfylkingar að undirbúa sig fyrir bardaga. Með marglitar grímur á höfðinu, ganga þau ekki, heldur hoppa þungt og taktfast frá Otavalo að fossinum kyrjandi og öskrandi alla leiðina. Stígurinn sem liggur að fossinum er myrkur, en einstaka manneskja tekur með sér vasaljós svo hægt sé að komast slysalaust áfram. Þegar við komum að fossinum trömpuðum við yfir brú, og við hylinn úr fossinum klæddi fólk sig úr. Svo stukkum við á nærfötunum út í hylinn sem var svo frjósandi kaldur að ég er með kuldahroll við það eitt að hugsa um það tveim dögum síðar. Eftir nokkrar sekúndur vandist það þó, og kuldinn varð þolanlegur. Við fótuðum okkur svo í áttina að fossinum, í hvarf frá öllu fólkinu sem stóð neðar og fylgdist með. Þegar við komum að fossinum vorum við umlukin klettum. Við færðum okkur alveg upp að fossinum, stóðum í hylnum, lokuðum augunum og lyftum upp höndunum. Vatnsdroparnir börðu mann af alefli frá toppi til táar og þegar ég dró inn andan fann ég að loftið ilmaði af vatni og eucalyptus. Ég held að þetta sé ein magnaðasta stund sem ég hef lifað. Bland af ofkælingu, dofa og endurnýjun.
Þegar við komum uppúr og klæddum okkur í fötin var það eins og að setjast í heitapott. Kuldahrollurinn hvarf og hláturinn tók við.
-Minnið mig á að blogga ef þið hittið mig.
Salóme
Sunday, June 24, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)