Monday, August 20, 2007

Bless

Jáh, og þá er komið að því. Síðasti dagurinn minn í Ekvador. Vélin fer í loftið klukkan 6:40 í fyrramálið, þriðjudaginn 21. ágúst. Svo lendi ég í Keflavík einhverntíman á fimmtudaginn, ekki viss með tímasetninguna. En núna þarf ég að segja bless við Ekvador.
Þetta var ótrúlegt, magnað. Perú og Bólivía voru líka frábær, þótt mér hafi tekist að sleppa þeim alveg sökum pirrings og ósættis við Bólivísk netkaffihús.
Kannski ég fleygi inn einhverjum sögum seinna, en líklegast þurfið þið bara að hitta mig.. og þá mun ég verða mjög pirrandi og ekki hætta að blaðra og þið eigið eftir að hugsa: "Vá, já ég veit að þú varst í Suður Ameríku Salóme.. nenniru núna að þegja?"

En þið verðið bara að gefa mér tíma til að fatta að ég er pirrandi.


Núna þarf ég að fara að pakka. Sjáumst innan skamms.

Thursday, August 16, 2007

Terremoto

Einn góðan veðurdag í Bólivíu settist ég niður á netkaffihúsi. Ég sat fyrir framan tölvuna í einn og hálfan- tvo tíma og dritaði niður öllu sem ég hafði gert í Perú. Eftir að hafa lokið verkinu ýtti ég á pöblish ..þá komu þessi líka fínu errorskilaboð, og tölvan lokaði öllum gluggunum.
Það var fjör.
Nú er þetta ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir, og mér finnst það ekki gaman.


En já, jarðskjálftinn í Perú, 7.9 úff. Ég er svo sannarlega góð í tímasetningunni. Var í Lima í tæpan sólarhring. Ég var með vinkonu minni í gleraugnabúð að máta gleraugu og litalinsur þegar skjálftinn byrjaði. Ég var að sjálfsögðu langsíðust að fatta hvað var í gangi, skildi ekki afhverju það var svona mikið basl að ná túrkisbláu litalinsunni úr vinstra auganu. Auli. Þetta var eins og sena úr bíómynd. Fólk flúði út á göturnar, öskraði, grét, bílarnir runnu til, rafmagnið flöktaði, þjófavarnarkerfi fóru í gang. Það sem hafði þó mest áhrif á mig var hversu ótrúlegur fjöldi fólks lagðist á bæn á götunni og bað af öllum lífs og sálar kröftum.

Það varð ekki mikill skaði í því hverfi Lima sem ég var stödd, rúður í einhverjum skrifstofubyggingum brotnuðu og bílar rákust eitthvað saman. Sumar blokkir voru rýmdar, en aðallega var fólk bara í miklu sjokki. Hinsvegar lögðust nokkrar borgir í rúst sunnar, og um 500 hafa fundist látnir.

Las áðan að skjálftinn hafi líka fundist í Chile, Ekvador og Kólumbíu.. það finnst mér merkilegt


Ég reyndi að vera ofsa kúl jarðskjálftavanur Íslendingur, en ég varð samt hrædd.


Sjáumst eftir viku,
Salóme