Jæja, þá er ég komin aftur á ströndina.. þriðja kyrrahafsheimsóknin á nokkrum mánuðum. Er núna í bæ sem heitir Montañita og er heví næs. Símon heitir ferðafélaginn minn, en han er hinn sjálfboðaliðinn sem er eftir. Allir hinir farnir, enda skólaárinu lokið. Öll húsin hérna eru byggð úr bambus.. sem mér finnst fáránlega heillandi. Kom hingað líka í febrúar, en hitinn er mun bærilegri núna þar sem það er "vetur" en það þýðir bara 25 til 30 stiga hiti og sól í stað 30 til 40 stiga hiti og sól.
Í gær vorum við í fiskiþorpinu Puerto Lopez, og fórum í æðislega ferð til Isla de la Plata (silfureyjunnar) sem er einnig þekkt sem Galápagos eyjar fátæka mannsins. Við fórum 14 saman í bát sem líktist einna helst snekkju, og viti menn, hittum hvali á leiðinni. Þrjá hvali sem voru að leika sér í nokkurra metra fjarlægð frá bátnum, stökkvandi og stingandi sér eins og hinir mestu montrassar. Það var engin smá heppni, því vanalega (ef fólk er heppið) sér það hval lulla sér rétt undir yfirborðinu í tvær mínútur áður en hann hverfur. Svo fórum við á eyjuna þar sem allt var skraufþurrt því það hefur ekki rignt í ég veit ekki hvað langan tíma. Ekki grænan blett að sjá. Þar sáum við "blue footed boobies", ótrúlega fyndna fugla með skærbláa fætur, albatrossa, hákarla, eðlur, og fleiri exótíska fugla sem ég man ekki fyrir fimmaur hvað heita. Við röltum um eyjuna í 4 tíma áður en við fórum aftur í snekkjuna okkar. Svo sigldum við á hinn enda eyjunnar og snorkluðum. Það var fáránlegt! ..Ég átti nefnilega fiskabúr þegar ég var lítil sem innihélt 24 fiska. Ég sá í hið minnsta helminginn af þeim syndandi fyrir framan nefið á mér. Fyndnast var að sjá ryksugufiskana!
Svo sóluðum við okkur á bátnum og stukkum af þakinu ofan í sjóinn, borðuðum samlokur, ananas, melónur, og drukkum gos. Sigldum svo aftur á meginlandið og horfðum á sólina setjast. Sungum ekvadoríska þjóðsönginn, og kvöddum hvalina.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
jaeja, thu fekst thá loksinsad heimsaekja isla de la plata. vid gerdum heidarlega tilraun i Februar ad gera hid sama, endudum vid ekki i stadin a yndislegri einangradri strond rett hja Montañita? good times, good times:)
Post a Comment