Sunday, November 4, 2007

Og upp var því kastað

Mig dreymdi rosa undarlegan draum í nótt. Ég man voða lítið fyrir utan það að allir voru að æla, rosa mikið af fólki, og allir að æla. Svo ældi ég líka.
Draumráðningar óskast.


Svo var það þetta myndband sem Símon, vinur minn sýndi mér fyrir soldið löngu.
Flott gella.

Tuesday, October 30, 2007

Bessastaðir

Mamma las það í einhverju blaðanna fyrir stuttu að nýkjörinn forseti Argentínu væri kona, Cristina Fernandez de Kirchner. Hún las fréttina upphátt fyrir mig, vandaði sig rosa að bera fram nafnið hennar, og við vorum báðar hæst ánægðar með þessa fínu frú.
Svo byrjuðu kvöldfréttirnar og þá var talað aðeins meira um forseta Fernandez þar sem meðal annars kom fram að frúin er lögfræðimenntuð. Þá leit mamma hægt á mig með augun galopin, spennt eins og einhver æðri sannleikur hefði vitrast henni, og sagði: "Kannski verður þú forseti.."

Sunday, October 28, 2007

Árið þúsund

Á föstudaginn fór ég í heimspekipartý. Hresst lið. Þegar ég sagðist vera vinkona hennar Júlíu stukku tveir drengir á mig, gripu í peysuna mína og grátbáðu mig um að komast að því hversvegna Júlía hataði þá svona mikið. Svo báðu þeir mig að segja henni að þeir væru ljúfir menn, og að þeir vildu bara að henni líkaði vel við sig. Júlía kom að sjálfsögðu af fjöllum þegar ég réðst á hana með lofsræðu um Sigurð og Ella.

Tuesday, October 9, 2007

Heimspekineminn

Júlía vitnaði í Karl Marx í heitapottinum áðan: "Öryrkjar allra landa sameinst!"

Monday, August 20, 2007

Bless

Jáh, og þá er komið að því. Síðasti dagurinn minn í Ekvador. Vélin fer í loftið klukkan 6:40 í fyrramálið, þriðjudaginn 21. ágúst. Svo lendi ég í Keflavík einhverntíman á fimmtudaginn, ekki viss með tímasetninguna. En núna þarf ég að segja bless við Ekvador.
Þetta var ótrúlegt, magnað. Perú og Bólivía voru líka frábær, þótt mér hafi tekist að sleppa þeim alveg sökum pirrings og ósættis við Bólivísk netkaffihús.
Kannski ég fleygi inn einhverjum sögum seinna, en líklegast þurfið þið bara að hitta mig.. og þá mun ég verða mjög pirrandi og ekki hætta að blaðra og þið eigið eftir að hugsa: "Vá, já ég veit að þú varst í Suður Ameríku Salóme.. nenniru núna að þegja?"

En þið verðið bara að gefa mér tíma til að fatta að ég er pirrandi.


Núna þarf ég að fara að pakka. Sjáumst innan skamms.

Thursday, August 16, 2007

Terremoto

Einn góðan veðurdag í Bólivíu settist ég niður á netkaffihúsi. Ég sat fyrir framan tölvuna í einn og hálfan- tvo tíma og dritaði niður öllu sem ég hafði gert í Perú. Eftir að hafa lokið verkinu ýtti ég á pöblish ..þá komu þessi líka fínu errorskilaboð, og tölvan lokaði öllum gluggunum.
Það var fjör.
Nú er þetta ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir, og mér finnst það ekki gaman.


En já, jarðskjálftinn í Perú, 7.9 úff. Ég er svo sannarlega góð í tímasetningunni. Var í Lima í tæpan sólarhring. Ég var með vinkonu minni í gleraugnabúð að máta gleraugu og litalinsur þegar skjálftinn byrjaði. Ég var að sjálfsögðu langsíðust að fatta hvað var í gangi, skildi ekki afhverju það var svona mikið basl að ná túrkisbláu litalinsunni úr vinstra auganu. Auli. Þetta var eins og sena úr bíómynd. Fólk flúði út á göturnar, öskraði, grét, bílarnir runnu til, rafmagnið flöktaði, þjófavarnarkerfi fóru í gang. Það sem hafði þó mest áhrif á mig var hversu ótrúlegur fjöldi fólks lagðist á bæn á götunni og bað af öllum lífs og sálar kröftum.

Það varð ekki mikill skaði í því hverfi Lima sem ég var stödd, rúður í einhverjum skrifstofubyggingum brotnuðu og bílar rákust eitthvað saman. Sumar blokkir voru rýmdar, en aðallega var fólk bara í miklu sjokki. Hinsvegar lögðust nokkrar borgir í rúst sunnar, og um 500 hafa fundist látnir.

Las áðan að skjálftinn hafi líka fundist í Chile, Ekvador og Kólumbíu.. það finnst mér merkilegt


Ég reyndi að vera ofsa kúl jarðskjálftavanur Íslendingur, en ég varð samt hrædd.


Sjáumst eftir viku,
Salóme

Wednesday, July 18, 2007

Bananabrauð

Hvað gerðist?

Ég yfirgaf Montañita, borðaði yndislegan mat í Ayampe, gekk um evrópskar götur Cuenca, svaf í hostelherbergi með rauðu loftljósi í Loja, og er núna komin í langlífisdalinn, Vilcabamba.

Hér er ég í lúxuslifnaði í hæðunum fyrir ofan bæinn. Það er fáránlegt. Ég er samt að borga 9 dollara fyrir nóttina, sem er helmingi meira en ég er vön. En þessir níu dollarar gefa mér fallegt herbergi með undursamlegum rúmum og baðherbergi, sundlaug umlukta trjám, plöntum og blómum, morgunverðarhlaðborð (pönnukökur, namm!) Billiardborð, borðtennis, pílukast, sjónvarp og dvd myndir, hjól til að komast leiða minna, hádegismat, og gullfallegt útsýni. Ég veit að ég hef gleymt slatta.. en upptalningin í heild sinni yrði of löng (þessi upptalning er nú þegar orðin lengri en manneskja með eðlilegt athyglisspan nennir að lesa.)
Hér ætla ég að vera í tvo daga í viðbót. Svo liggur leiðin til Perú. 8 tíma rúta til Piura, á Hölluslóðir, jibbí!

Annars er ansi stutt í heimkomu. Óhuggulega stutt. Mánuður og fimm dagar, ekki meir. En tölum ekki um það núna. Ég ætla að hjóla aftur upp hæðina, stinga mér í sundlaugina, borða kaktus og spila risaskák.

Þangað til í Perú,
Slalom

Friday, July 13, 2007

Isla de la Plata

Jæja, þá er ég komin aftur á ströndina.. þriðja kyrrahafsheimsóknin á nokkrum mánuðum. Er núna í bæ sem heitir Montañita og er heví næs. Símon heitir ferðafélaginn minn, en han er hinn sjálfboðaliðinn sem er eftir. Allir hinir farnir, enda skólaárinu lokið. Öll húsin hérna eru byggð úr bambus.. sem mér finnst fáránlega heillandi. Kom hingað líka í febrúar, en hitinn er mun bærilegri núna þar sem það er "vetur" en það þýðir bara 25 til 30 stiga hiti og sól í stað 30 til 40 stiga hiti og sól.
Í gær vorum við í fiskiþorpinu Puerto Lopez, og fórum í æðislega ferð til Isla de la Plata (silfureyjunnar) sem er einnig þekkt sem Galápagos eyjar fátæka mannsins. Við fórum 14 saman í bát sem líktist einna helst snekkju, og viti menn, hittum hvali á leiðinni. Þrjá hvali sem voru að leika sér í nokkurra metra fjarlægð frá bátnum, stökkvandi og stingandi sér eins og hinir mestu montrassar. Það var engin smá heppni, því vanalega (ef fólk er heppið) sér það hval lulla sér rétt undir yfirborðinu í tvær mínútur áður en hann hverfur. Svo fórum við á eyjuna þar sem allt var skraufþurrt því það hefur ekki rignt í ég veit ekki hvað langan tíma. Ekki grænan blett að sjá. Þar sáum við "blue footed boobies", ótrúlega fyndna fugla með skærbláa fætur, albatrossa, hákarla, eðlur, og fleiri exótíska fugla sem ég man ekki fyrir fimmaur hvað heita. Við röltum um eyjuna í 4 tíma áður en við fórum aftur í snekkjuna okkar. Svo sigldum við á hinn enda eyjunnar og snorkluðum. Það var fáránlegt! ..Ég átti nefnilega fiskabúr þegar ég var lítil sem innihélt 24 fiska. Ég sá í hið minnsta helminginn af þeim syndandi fyrir framan nefið á mér. Fyndnast var að sjá ryksugufiskana!
Svo sóluðum við okkur á bátnum og stukkum af þakinu ofan í sjóinn, borðuðum samlokur, ananas, melónur, og drukkum gos. Sigldum svo aftur á meginlandið og horfðum á sólina setjast. Sungum ekvadoríska þjóðsönginn, og kvöddum hvalina.

Tuesday, July 3, 2007

Tulcán og Kólumbía

Jáh, við Símon skruppum til landamærabæjarins Tulcán í fyrradag og spókuðum okkur aðeins. Skoðuðum kirkjugarðinn sem er án efa sá fegursti í Suður Ameríku, ef ekki í heiminum. Kirkjugarður svo fallegur að hann býður manni að deyja. Hann er ótrúlega stór, þakinn öllum þeim fígúrum sem manni getur látið sér detta í hug.. klipptar út í sígræna runna. Langir grænir völundarhússtígar og grafhýsi. Eftir að við vorum búin að labba um kirkjugarðinn í nánast fjóra tíma var farið að dimma, svo við keyptum okkur kínverkan teikát og horfðum á die hard tvö sem var í sjónvarpinu sem var á hótelinu okkar (Geggjað! Hafði ekki horft á sjónvarp í þónokkra mánuði) Úttroðin af vestrænni menningu fórum við svo að sofa alsæl.
Dagin eftir ákváðum við síðan að skella okkur aðeins til Kólumbíu. Við byrjuðum á því að fara ólöglega inn í landið. Slepptum öllu immigration prósessinu, og valhoppuðum yfir til Kólumbíu. Svo nefndi Símon vegabréfið sitt í einhverju spjalli og þá rann upp fyrir okkur að við höfðum alveg gleymt vegabréfastússinu. Við auluðumst aftur yfir til Ekvador og Fengum leyfi til að yfirgefa landið, og annað leyfi og stimpil til Kólumbíu. Svo fórum við aftur yfir landamærin, löglega í þetta skiptið. Kólumbía var mjög skemmtileg, þótt við höfum ekki farið langt inn í landið. Við fórum á mest heimsótta pílagrímaáfangastað í Suður Ameríku, klettavegg í gljúfri þar sem María mey er sögð hafa birst árið 1750. Nú er búið að byggja undurfallega kirkju í klettavegginn, og er altarið staðurinn sjálfur þar sem María mey birtist lítilli daufdumbri stúlku og móður hennar.
Við drukkum ljúffengt kaffi og borðuðum karamellur. Að lokum fórum við aftur til Ekvador. Í bílnum á leiðinni til Tulcán var ótrúlega mikið af hressu og skemmtilegu fólki og það vara rosa fjör alla leiðina, og mikið spjallað. Þegar við vorum að keyra inn í Tulcán spyr bílstjórinn hvort við hefðum þurft að bíða lengi í immigrationinu á leiðinni út úr Kólumbíu. Ha? Sögðum við.. við fórum ekki í neitt svoleiðis.

..Aftur höfðum við farið ólölgega yfir landamærin. Bílstjórinn varð mjög alvarlegur og sagði að þetta væri alls ekki gott, því að tæknilega værum við ennþá í Kólumbíu. Svo var brunað til baka að landamærunum og við fengum rétta stimpla.
Hefði bílstjórinn ekki spurt okkur að þessu hefðum við heldur betur lent í vandræðum þegar löggurnar hópuðust inn í rútuna okkar stuttu seinna og heimtuðu pappíra.

Aular.

Sunday, June 24, 2007

La cascada de Peguche

Vá, það liggur í augum uppi að ég er orðin ámánaðarfrestibloggari. Ég biðst afsökunar á því. Líklegast er þó að þessi afsökunarbeiðni berist aðeins til pabba míns sem er örugglega sá eini sem enn tékkar á þessu reglulega.

Allavegana, það hefur margt gerst, en þó ekki of. Ég fór til að mynda í tveggja vikna ferðalag. Nú hugsa margir: "Úú.. Kólumbía? Brasilía?" En nehei. Ég gaf bara skít í að reyna að vera svalur ferðalangur og skellti mér á sólarströnd til Spánar þar sem ég hitti fjölskylduna og við héldum upp á fimmtugsafmælið hans pabba. Já, maður er nú ekki meira hard kor en þetta.


Þessa vikuna er Inti Raymi (Sólarhátíðin) í fullu fjöri. Þetta er gömul Inka hefð sem táknar upphaf nýs árs og frumbyggjar Ekvador halda enn upp á þessi aldargömlu áramót. Hátíðarhöldin standa í níu daga, og hefjast á hreinsunarathöfninni; miðnæturbaði í Peguche fossinum sem er staðsettur inní einu elstu samfélaganna í kringum Otavalo. Við Nicole hin Bandaríska fórum þangað ásamt vinum okkar frá Otavalo. Frumbyggjarnir ferðast í skrúðgöngum að fossinum sem eru meira einsog herfylkingar að undirbúa sig fyrir bardaga. Með marglitar grímur á höfðinu, ganga þau ekki, heldur hoppa þungt og taktfast frá Otavalo að fossinum kyrjandi og öskrandi alla leiðina. Stígurinn sem liggur að fossinum er myrkur, en einstaka manneskja tekur með sér vasaljós svo hægt sé að komast slysalaust áfram. Þegar við komum að fossinum trömpuðum við yfir brú, og við hylinn úr fossinum klæddi fólk sig úr. Svo stukkum við á nærfötunum út í hylinn sem var svo frjósandi kaldur að ég er með kuldahroll við það eitt að hugsa um það tveim dögum síðar. Eftir nokkrar sekúndur vandist það þó, og kuldinn varð þolanlegur. Við fótuðum okkur svo í áttina að fossinum, í hvarf frá öllu fólkinu sem stóð neðar og fylgdist með. Þegar við komum að fossinum vorum við umlukin klettum. Við færðum okkur alveg upp að fossinum, stóðum í hylnum, lokuðum augunum og lyftum upp höndunum. Vatnsdroparnir börðu mann af alefli frá toppi til táar og þegar ég dró inn andan fann ég að loftið ilmaði af vatni og eucalyptus. Ég held að þetta sé ein magnaðasta stund sem ég hef lifað. Bland af ofkælingu, dofa og endurnýjun.
Þegar við komum uppúr og klæddum okkur í fötin var það eins og að setjast í heitapott. Kuldahrollurinn hvarf og hláturinn tók við.

-Minnið mig á að blogga ef þið hittið mig.
Salóme

Tuesday, May 22, 2007

Jííha

Jámm, myndir komnar á Flickrið frá göngunni frá Lloa til Mindo, og svo frá annarri göngu nálægt Papallacta, sem við héldum í fjögur um helgina.. Tékk itt.


p.s. Það var geggjað mikið af leðju í Papallacta göngunni, upp að hnjám mestallan tímann.


Ciao, Shalom

Friday, May 11, 2007

A ver..

Ég er í Quito.. Var að koma úr innflytjendaráðuneytinu þar sem ég náði mér í vegabréfsáritun upp á aðra þrjá mánuði. Mér finnst skrýtið að fyrstu þrír mánuðurnir séu strax búnir. Finnst ég bara nýkomin. Ég verð reyndar aðeins lengur en sex mánuði allt í allt, svo að ég þarf að fara út úr landi í einhvern tíma, en það passar bara vel þar sem ég ætla mér að heimsækja hana Ragnheiði Hörpu, sem hefur eitthvað verið að dúlla sér í Perú síðasta árið.
Mér líkar Quito ótrúlega vel, og gæti alveg hugsað mér að búa hérna. Þetta er stórborg, en er samt svo ótrúlega vinaleg og hlý.
Hérna í Quito gera þau eitt sem mér finnst mjög fallegt. Ef þú labbar um göturnar og hefur augun hjá þér geturðu víða séð stór blá hjörtu máluð á jörðina. Þessi hjörtu eru máluð þar sem fólk deyr í umferðinni. Mér finnst það gott, bæði vegna þess að það er verið að minnast fólksins sem lést, og vegna þess að þetta er áminning á alla aðra að fara varlega. Sorglegast fannst mér samt að sjá tvö hjörtu hlið við hlið: eitt stórt, eitt lítið. Mér finnst að þetta ætti að gera allstaðar.

Annars er rigningatímabilinu að ljúka: Húrra fyrir því! ..ég er orðin frekar þreytt á daglegu rigningunni sem kemur yfirleitt á milli þrjú og fimm og endist svona þrjá klukkutíma. Núna eru rigningarlausir dagar farnir að koma oftar, og krakkarnir leika sér ótrufluð fram að sólsetri. Við krakkarnir erum glöð, en foreldrarnir hafa áhyggjur; þurrkurinn sem er á leiðinni á eftir að koma illa niðri á uppskerunni, og maturinn verður af skornum skammti næstu mánuðina.
Þetta eru árstíðirnar í Ekvador; rigning og þurrkur. Þegar ég segi fólki að ég komi norðarlega af hnettinum (glætan að þau viti hvar Ísland er, vinur minn frá Englandi er oft spurður hvort landið hans sé nálægt Kólumbíu) þá verða þau rosa spennt og spurja hvort við höfum árstíðir í landinu mínu. Fyrsta spurningin, það klikkar ekki.
Annars gengur allt bara vel. Ég ætlaði að skella símanúmerinu mínu hérna inn, en ég man það ekki, svo ég þarf að spurja mömmu og pabba fyrst. Svo get ég bombað því hérna inn, jafnvel ásamt heimilisfangi..

Kayakama!
-Salómína

Sunday, April 29, 2007

Myndir

Kominn tengill fyrir myndirnar mínar! Njótið :)

-Shalom

Tuesday, April 24, 2007

Lloa - Mindo ævintýr

Jáh, verð greinilega að bíða með að koma inn myndum.. En já. Ég fór í þriggja daga göngu þarsíðustu helgi með sex öðrum sjálfboðaliðum. Við vorum sko hard kor. Með tuttugu kílóa bakpoka og tjöld á bakinu lögðum við af stað frá litlu fjallaþorpi, Lloa, inn í fjallgarðinn. Ferðin hófst í tæpum 11,000 fetum og við sáum fátt vegna þess að skýjin umluktu okkur nánast allan tímann. Við gengum meðfram fjallinu , og leiðin lá niður. Ferðinni var heitið niður í 4,000 fet til bæjar sem heiti Mindo. Smám saman tók gróður að vaxa meðfram veginum sem við gengum, og umhverfið varð hlýlegra. Við gengum í nokkrar klukkustundir áður en á okkur lenti hellidemba, og við ákváðum að láta þetta gott heita fyrir daginn. Við fundum stað til að tjalda á hjá niðurrifnu húsi sem leit ágætlega út. Þurftum reyndar að berja af okkur nokkur lamadýr sem kom í ljós að bjuggu þarna. Undir lok dagsins vorum við samt blessunarlega orðin ágætir vinir, menn og lamadýr. Nóttin var gullfalleg þarna, allt upplýst af eldflugum hvert sem litið var og himinninn heiðskýr og stjörnubjartur. Morguninn eftir vöknuðum við við að sólin kom upp um sexleitið. Borðuðum morgunmat (brauð og túnfiskur í öll mál), og héldum í hann aftur. Þennan dag var mikið gengið og umhverfið breyttist á örskotsstundu úr hálendi í frumskóg. Laufblöðin á trjánum urðu meiraðsegja nógu stór til að fela sig á bak við þegar kom að pissupásum. Skordýrin urðu ótrúlega exótísk, og ég sá margar verur sem ég man bara eftir að hafa séð í dýralífsbókunum hans Grétars þegar ég var lítil.
Við lentum þó í ýmsum hindrunum á leiðinni. Kom í ljós að leiðarlýsingin sem við vorum að fara eftir var tíu ára gömul, og margt hafði breyst síðan þá.. og þá allra helst árfarvegir. Við þurftum að vaða yfir margar ár á nærbuxunum með bakpokana á hausnum, en þegar við komum að einni um hádegisbil, varð okkur ljóst að sú aðferð væri úrelt. Áin var allt of vatnsmikil, og engin leið yfir. Þegar við stóðum og göptum á þetta, veltum fyrir okkur hvort við þyrftum að snúa við, varð á vegi okkar gamall maður sem var ekkert smá glaður (og hissa) að sjá hvítt fólk á ferðinni. Hann skaust í burtu, og kom til baka stuttu seinna með tvo múlasna. Nett smeyk, ákváðum við að þetta þyrfti samt að vera það besta sem við gætum gert í stöðunni. Það væri annaðhvort þetta, eða að snúa við. Við festum bakpokana okkar á einn múlasnann, tvo og tvo í senn, og fórum, eitt og eitt, yfir á hinum múlasnanum. Það kom í ljós að við hefðum aldrei komist yfir án þessa, því jafnvel múlasnarnir voru nærri falli á leiðinni yfir. Þegar þessu var loksins lokið önduðum við léttar, vinkuðum manninum bless, og bundum fimm dollara við annan múlasnann áður en við sendum þá yfir til eigandans síns (sem varð yfir sig ánægður).
Jæja, svo ætluðum við að halda göngunni áfram, en komumst eftir mikla leit og vesen að því að slóðinn var nokktum metrum fyrir ofan okkur. Við enduðum þessvegna á því að þurfa að klifra eitt stykki klettavegg, koma okkur vel fyrir í þverhnípinu, og færibanda bakpokunum upp.

Eftir þetta tók slóðinn að verða óljósari, því við gengum beint inn í frumskóginn og allt varð dimmt og rótgróið. Þar endaði ég á að leiða hópinn með trjágrein í hendi sem ég þurfti að sveifla fyrir framan mig allan tímann til að rífa niður köngulóavefina sem voru við hvert fótmál. Talandi um að þurfa að losa sig við pempíuskap. Á endanum var ég orðin það hörð að ef ég sá risastórt grænt, gult, rautt blátt eða marglitað kvikindi skríða niður eftir handleggnum á mér, var því bara dustað af án minnstu hræðsluviðbragða. (bújaggasjei!).
Frumskógurinn fór síðan að verða drullugari og drullugari, og síðustu tvo tíma dagsins vorum við öll vaðandi í leðju uppfyrir hné. Stígvélið hennar Jóhönnu og sandalinn minn urðu bæði eftir í kviksyndi -engar áhyggjur mamma, það var ekki nógu djúpt til að gleypa okkur heil. En það var fyndið að brölta upp úr því (láta toga sig öllu heldur).
En eftir einn tíma af drulluvaði kom regnskógarigningin af fullum krafti. Þeir partar af okkur sem enn voru þurrir rennblotnuðu á örskotsstundu. Í rigningunni gengum við í rúman klukkutíma, því hvergi var hægt að tjalda, og við höfðum ekki séð hús síðan um morguninn. Þegar myrkrið var að leggjast yfir gengum við loksins fram á stórt hlið með gaddavírsgirðingu allt um kring. Hinum megin komum við auga á hús, og hugsuðum okkur ekki um tvisvar, heldur stukkum yfir hliðið til að biðja um gistingu. Við komumst hinsvegar fljótt að því að þarna var enginn, en staðurinn var algjör paradís. Viðarhús með risastórri verönd þar sem við flýttum okkur úr blautu fötunum, og hlýjuðum okkur í svefnpokunum á meðan við gæddum okkur á túnfisk og hörðu brauði. Það var yndislegt að vera húsatökumaður.

Við vöknuðum rétt fyrir fimm morguninn eftir. Þriðji og síðasti dagurinn, og margir kílómetrar eftir. Það var ennþá niðamyrkur þegar við pökkuðum saman tjöldunum, stungum blautu fötunum og svefnpokunum í risabakpokana og borðuðum morgunmat (brauð og túnfisk..). Þegar birtan fór að læðast in skrifuðum við þakkarbréf til eiganda hússins og skildum eftir fimm dollara til að lækna samviskubitið. Í morgunhúminu héldum við svo af stað, og fundum skyndilega öll fyrir því að við höfðum verið að ganga síðustu tvo dagana. Harðsperrurnar voru gífurlegar, svo við tölum ekki um hælsærin og blöðrurnar sem voru búnar að myndast á flestum fótum. Við höltruðum í gegnum fyrsta hálftímann, en svo fóru fæturnir að átta sig á því að þessu væri ekki lokið enn, og geymdu sársaukann fyrir okkur. Við vorum núna farin að ganga meðfram einni ánni mestallan tímann, en þess á milli eltum við gömul hófaför í jörðinni, því sjaldnast var greinilegur slóði að fylgja. Veðrið var æðislegt og við sungum gömul kántrílög af fullum krafti.
Þegar við komum yfir eina ána löbbuðum við smáspöl áður en hófaförin skyndilega hurfu. Það hljómar kannski ekki svakalega, en þetta þýddi að nema við gætum fundið slóða eða för, værum við týnd. Það var ekki gott. Við settumst niður uppgefin á eyju í miðri ánni og borðuðum meiri brauð og túnfisk.. Svo var farið að leita. Um hálftíma seinna heyrum við Peter kalla uppfyrir sig: Hófaför! Við fylgdum þessum förum hikandi, en sáum svo að smám saman birtist þessi fíni slóði fyrir framan okkur og við fögnuðum eins mikið og við höfðum orku til. Nú vorum við hinsvegar komin í tímaþröng svo við sprettum úr spori. Slóðinn brekkaði og frumskógurin færði sig þartil við vorum að ganga á grösugu engi. Þá sáum við nokkuð sem fékk okkur öll til að kalla uppfyrir okkur: Manneskja! Ég sé manneskju! Við veifuðum og hlupum til mannsins sem var ásamt öðrum manni að byggja brú yfir ánna sem við höfðum verið að labba meðfram lengi. Hann var nett hissa, en sagði okkur að við værum á réttri leið, og leyfði okkur að fara yfir "brúna" sem var bara hálfbyggð. Hinum megin tók við okkur alvöru malarvegur, og brátt fórum við að sjá fólk ríða hjá á múlösnum, og hús tóku að birtast við veginn.
Núna fór þreytan hinsvegar að segja til sín. Fætur sumra gátu ekki lengur haldið aftur af sársaukanum, og við hægðum á okkur. Við vorum samt enn í tímaþröng því að tjöldunum þurfti að skila fyrir klukkan fimm í Quito. Það endaði þannig að við skiptum okkur í tvo hópa; hraða og hæga. Hægi var fólkið sem gat ekki fengið fæturnar sína til að virka mikið lengur, og við fórum fjögur í hraða hópnum með það að markmiði að koma tjöldunum til Quito sem allra fyrst. Þá tókst mér meðal annars að detta kylliflöt í drullupoll, en enginn tími til að þrífa sig, halda áfram.
Undir lokin, eftir að hafa tekið ranga beygju og labbað hálftíma í burtu frá áfangastað, og eftir að hafa gengið upp fjallið endalausa, vorum við öll úrvinda. Af einskærri heppni fengum við loks far hjá kólumbískum manni á pallbíl, sem hraðaði okkur í bæinn.

Þetta endaði svo allt á yndislegri súkkulaðiköku í Quito: Sjö, illa lyktandi, drullug, og útsogin af blóðsugum. Alsæla!

sí jah! -Shalom

Tuesday, April 17, 2007

Bloggí

Ég ætla að blogga um frumskógarferðina mína þegar ég er komin með myndir til að hafa memm.

..líklega um helgina

Pís át!

Saturday, April 7, 2007

Canoa og brimið.

Ég hef tvisvar farið á netkaffihús síðan síðasta færsla var birt. Í bæði skiptin talaði ég við mömmu og pabba svo lengi ókeypis á skæp að þegar samtölunum lauk var ég komin með ógeð á netinu, og vildi komast út í sólina, ég biðst forláts. Núna sit ég hinsvegar á kennara- foreldrafundi og skrifa þessa færslu í bók. (Og núna er ég að skrifa hana upp í tölvu á ströndinni). Mér finnst það góð tímanýting þar sem fundurinn fer nánast allur fram á kichwa, og framlag mitt því takmarkað við setningar á borð við: "Ég þvæ diskana" og "Ég er að fara til Otavalo".

Um daginn fórum við fjögur í heimsókn til Minas Chupa- samfélagsins sem Nicole (us) og Amelie (de) kenna í. Þar voru hátíðarhöld sem við tókum þátt í í tilefni dags konunnar. Spiluðum mikið blak í drullunni og ég fékk að vera í liði með forseta samfélagsins. Í öllum æsingnum tókst mér að segja hluti eins og "mister president!" og "Go! President! Go!". Á meðan við vorum að háma í okkur empanadas til að ná upp orkunni eftir "tryllta" ekvadoríska dansa tókum við eftir tónlist í pínu fjarlægð. Við sáum lítið vegna þokunnar (sem er nánast alltaf þarna, Minas Chupa er byggt í svokölluðum skýjaskógi) en við vorum forvitin og gengum á hljóðið. Þegar við komum nær sáum við þorpsbúa í einskonar skrúðgöngu. Sumir söngluðu, aðrir þögðu. Öll héldu þau á hænum. Fyrir þeim gengu menn með flautur, trumbur og fiðlur og spiluðu frekar drungalega tónlist. Skrúðgönguna leiddi þessi maður:

Það óhuggulegasta var þegar hann leit beint í augun á mér, og ég sá að augun á þessum gamla frumbyggja voru ísblá. Skrúðgangan fór langar leiðir, stoppandi öðru hvoru í dansi. Allir héldu um fæturnar á hænunum og dönsuðu með þær yfir höfði sér. Loks var komið á stað þar sem prestur stóð og blessaði hverja hænu fyrir sig áður en þeim var hlaðið á trukk. Okkur var samt að þetta væru gjafir til kirkjunnar.



..Núna sit ég á ströndinni í yndislegum hita og vellíðan. Síðustu tveir dagar hafa nánast allir farið í brimbrettakennslu á litlum brettum sem ég kýs að kalla aulabretti.. Þetta er friggin ass gaman! Svo skipti ég yfir og prófaði alvöru brimbretti. Og eftir það, þá held ég að ég neyðist því miður að flytja úr samfélaginu mínu á ströndina. Ég veit ekki hvort að sálin mín eigi eftir að ráða við það að prófa eitthvað svona skemmtilegt, og sjá því svipt frá sér jafnóðum.
Hér lifum við á ávaxtasafa og sjáfarfangi, sem er svo gott hérna að ég tárast. Ég er ennþá að skrifa þesa færslu í bók, því ég held að það sé ekki net í þessum bæ.

Ég fer heim í kvöld.

Thursday, March 22, 2007

Sólbruni

Ég er orðin hard kor indígena. Í gær voru karlmennirnir að plægja akurinn. Ég arkaði til þeirra með brauð, baunir og maís bundið á bakið, vefjarhött (sólin er núna beint á kollinum á manni. Engir skuggar, jibbí!), og staf í hönd vegna þess að ég var að reka á undan mér hóp af kindum. Leiðin að akrinum er mjög erfið. Maður labbar í gegnum kornakra og aur og allt í svo geðsjúkum halla að það er erfitt að halda jafnvægi. Þess vegna var ég berfætt, gerir það auðveldara að fóta sig. Ég datt. Þegar ég kom á akurinn sem er falinn inn í djúpum dal, sá host-mamma mín að ég hafði skrapað upp á mér olnbogann. Hún reif samstundis burt alla lausa húð og sagði: "Ég ætla að láta kanchigis á sárið, það er græðandi." Jújú, sagði ég.. skildi ekki hvað það var en gerði ráð fyrir að það væri einhver jurt. En neinei, stingur konan ekki hendinni inná blússuna, vippar út vinstra brjóstinu, og mjólkar sig yfir hendina mína. það er ekki margt lengur sem ég kippi mér upp við hérna. En þessu bjóst ég ekki við.
Svo plægði ég akrana með mönnunum og nokkrum konum. Það var rosa vinna, sérstaklega af því það var steikjandi hiti og sólin á hæsta punkti. Ég þurfti líka virkilega að taka mig á í geitungahræðslu þegar ég þurfti að fara að bera illgresishrúgur af akrinum og yfir í risastóran haug. Ég spurði Dolores (brjóstakonuna) hvaða hljóð þetta væri eiginlega. Einhverskonar ymur sem lét manni klæja í eyrun.. Hún sagði mér að þetta væru geitungarnir að hlæja. Þeir mega alveg hlægja fyrir mér, bara ekki í hrúgunum sem ég þarf að halda á.
Sjáðu fyrir þér hrúgu af illgresi. Í hrúgunni eru sveimandi tíu til tuttugu geitungar. Þú þarft að stinga höndunum þarna inn, lyfta þessu upp, og rogast með það dálítinn spöl. Svo þarftu að henda því á þá tugi geitunga sem sveima um í stóru hrúgunni.
Úff.

Á sunnudaginn var skírn. Það var verið að skíra níu mánaða dóttur fólksins sem ég bý hjá, og ellefu mánaða sonarson þeirra. Þetta var fyrsta Evangelíska messan sem ég fer í. Spes, mikið sungið, rosa módern, rosa falskt. Plast-garðstólar og gítar. Allavegana þá tók ég eftir því að út í horni við altarið lá strigapoki. Þegar verið var að skíra börnin tók pokinn að hreyfast öðru hvoru, meira og meira, þangað til allt í einu hann stóð upp og kjagaði fram á kirkjugólfið. Kona kom hlaupandi og fjarlægði pokann, kom stuttu seinna með nýjan og lét hann í þetta skiptið við fætur prestsins sem var nú að skíra seinna barnið. Við fórum áður en ég sá hver yrðu afdrif þess sem í pokanum var. Svín eða lamb. Fórn? ..vonum ekki.

Ó já, svo var veisla eftir á. Ég fékk baunir, ananaskartöflu* og lambslunga. Afþakkaði naggrísinn. Kannski seinna.
*Kartafla á stærð við ananas. Ég eyddi morgninum sitjandi á fötu í hefðbundnum búningi frumbyggjanna að flysja þessar kartöflur ásamt nokkrum tannlausum konum. Ólíkt heima, þá er ástæðan fyrir því að þau flysja kartöflurnar hérna sú að þá getur maður séð hvar maðkarnir eru og skorið þá burt.
Gömlu konurnar hérna eru snillingar. Ef aðeins ég talaði kichwa.



Það er ein setning sem kemur í kollinn á mér hvað eftir annað. Oftast þegar ég ligg í hengirúminu mínu, ligg í grasinu að borða karamelluepli eða dáist að útsýninu á fleygiferð í þaklausum vörubíl: Ég er ótrúlega ánægð með lífið mitt akkúrat núna.

Saturday, March 3, 2007

Gaggalagú

Á miðvikudaginn var fyrsti kennsludagurinn minn í skólanum. Hinar kennskukonurnar drápu fjórar hænur og suðu úr þeim súpu mér til heiðurs. Hjálp. Ég fékk æluna upp í kok þegar ég sá sundurtætta líkamspartana fljóta um í súpunni. Úff. Ég reyndi að útskýra blíðlega fyrir þeim að ég væri grænmetisæta. Það hitti ekki í mark. Þetta væru hænur úr sveitinni, lostæti. Ég klemmdi aftur augun og rétti fram diskinn. Sat svo með sundurtættan legg í kjöltunni, illa reyttann.. fjöður á stangli, og lít út á skólalóðina þar sem einn hani og tvær hænur voru á vappi. -Voru þær ekki fleiri í gær? Konurnar brosandi að hakka í sig, ein tyggur fót, bendir hlæjandi á hænsnin og segir; "Ví ít this!"

Paolo var að fá sjónvarp, í lit! Á fimmtudagskvöldið söfnuðumst við öll saman inn í herberginu hans, horfðum á ekvadoríska sápuóperu og tuggðum sykurreyr.

Tuesday, February 27, 2007

Banana fields forever

Ég er búin að hitta fjölskylduna mína. Hún heitir Dolores, hann Sebastian. Þau eiga fimm börn og eitt þeirra á barn líka. Sebastian nær mér ekki upp að öxlum.
Þau eru samt mjög indæl og tóku vel á móti mér. Hún talar samt frekar tæpa spænsku svo ég þarf að fara að taka mig á í ketchua. Þarna er spænska eitthvað sem fólk lærir í skóla. Enn sem komið er kann ég bara að segja góðan daginn, svo samskiptaörðuleikar eru töluverðir.

Á leiðinni frá Guayaquil til Quito um daginn keyrði rútan mín framhjá bananaökrum Dole. Þá sá ég bananatré í fyrsta skipti. Þau eru mjög bananaleg. Allavegana, þá þótti mér akrarnir heldur stórir, svo ég ákvað að gaman væri að taka tímann, sjá hversu lengi rútan væri að keyra framhjá. Við keyrðum og keyrðum.. stundum komu hús, en öll voru þau með bananaakur í stað bakgarðs. Svo tók sólin að setjast. Og það kemur í ljós, að það er mjög svipað að horfa á bananaakra þjóta hjá í myrkri, og að telja kindur. Endalaust og svæfandi.
Ég sofnaði.
Ég vaknaði. -Bananatré.
Ég sofnaði og vaknaði í Quito.

Talandi um banana, þá flýgur sú saga um meðal útlendnga að Ísland sé stærsti bananaræktandi Evrópu. Satt? Gúglið það!

Fróðleikskorn: Í Ekvador þarf maður ekki að vera mjór til að ganga í magabol. Maður þarf heldur ekki að vera kvenkyns.

Friday, February 23, 2007

Halelúja

Krakkar, born.. ég hef fundid himnaríki á jordu. Thad er stadsett í Ekvador og heitir Ayampe. Himnaríki er tiltolulega lítill stadur, samanstendur af nokkrum strákofum, hengirúmum, og orfáum húsdýrum (haenur og einn asni). Thad stendur á strond vid kyrrahafid. Endalausri, hvítri strond innan um fjoll og pálmatré med fullthroskudum kókoshnetum. Í fjarska rísa eyjur upp úr hafinu sem grípa geislana vid sólsetur. Haegt er ad ganga lengst út í haf án thess ad sjórinn svo mikid sem nái manni upp ad mitti. Kaera fólk, thetta er lífid! Thar er ekkert internet, svo vid Haudur sitjum nú á netkaffihúsi í Montañita, litlum strandbae í ca. klukkutíma rútufjarlaegd frá Ayampe.
Í gaer drukkum vid límonadi í hengirúmunum okkar, lobbudum berfaettar í sandinum, og veltumst um eins og hafgúan (Rúv '96) í yndislega hlýjum sjó. Thad eru fáir tharna fyrir utan innfaedda. Bara vid og nokkrir brimbrettagaejar. Vid hofum framlengt veru okkar hér.
Montañita er adeins odruvísi baer. Staerri, en samt mjog lítill á baejarmaelikvarda. Thetta er svona baer thar sem fólk notar ekki skó og allt er ótrúlega afslappad. Hann er samt rosalega flottur. Ekkert plast sjáanlegt og oll húsin úr timbri med stráthokum, sama hvort thad sé netkaffihús eda heimili. Kirkjan er tho úr steini.
Núna aetlum vid Haudur ad fara og fá okkur eilífdardrykkinn, límonadi. Svo aetlum vid ad sofna í hengirúmunum okkar.

A díos.

Wednesday, February 21, 2007

Salinas

Nú sitjum vid haudur á kaffihúsinu Cyberm@r í strandbaenum Salinas, sem er sunnarlega í Ekvador. Hitinn er hár og strandlengjan vill engan enda taka...
Thad er rosalega fyndid hvad fólkid hérna er ekki vant thvi ad sjá ljóshaert fólk, madur er oft naer thvi ad vera sirkúsdýr en strandargestur. Í gaer fórum vid Haudur á strondina og thegar vid fórum í sjóinn til ad kaela okkur myndadist oftar en ekki hringur af fólki í kringum okkur sem oll stordu miskunnarlaust á mann. Svolítid eins og mildari útgáfa af einu atridinu í Little Children fyrir ykkur sem hana hafa séd. Já, madur tharf ekki ad hafa vit í kollinum til ad fatta ad madur sé odruvísi.
Hvernig vaeri thad samt.. ímyndum okkur ad svartur madur komi í Nauthólsvík, og fari í sjóinn ad bada sig. Hvernig yrdi tekid á móti thvi ef their sem í sjónum vaeru haettu ad synda, staedu bara og stordu. Bornin hvísla ad foreldrum sínum og adrir benda. Hmm?
Mér er svosem sama um thetta, madur leidir thetta bara hjá sér. Sumstadar er thad tho audveldara en annarsstadar. Salinas á Karnivali er samt frekar slaemur stadur hvad áreiti vardar, en vid erum hardar af okkur. Svo kláradist karnivalid líka í gaer. Thad er audveldara ad leida thetta hjá sér ef madur lítur ekki út eins og hveitihúdad kandíflos í sundi. Ekki fleiri froduárásir í bili, takk.
Punkturinn yfir i-id var tho kannski settur í gaerkvoldi thegar vid vorum á leidinni heim á hótel eftir kvoldmat, klístradar og marglitar eftir alla froduna, og thaktar í hveiti. Tha keyrdi hjá trukkur med ungum drengjum sem helltu yfir okkur sjó úr fotu. Ég bjargadist ad hluta til vegna thess ad Haudur tók skellinn, og var rennvot frá toppi til táar.

Í dag er búinn ad vera óbaerilegur hiti, svo vid ákvádum ad vera gódar vid okkur. Vid fengum okkur edal máltíd á flottasta hótelinu í baenum og eftirrétt (kostadi samt ekki nema svona.. 500 kr. íslenskar) og á eftir aetlum vid á Spa í nudd og fótsnyrtingu. Aaaahhh...!

Á morgun holdum vid svo til baejarins Ayampe thar sem vid munum gista í einhverskonar tjoldum sem ku víst vera yndislegt, og á fostudaginn siglum vid á la Isla Salango, eyju í Kyrrahafinu thar sem vid forum í snorkling og fleira.
En í kvold er thad yndislegt dekur á stjornu prýddu hóteli.

Hasta la vista baby,
Arnold

Sunday, February 18, 2007

Quito

Nu er gellan komin til Quito og ordinn partur af megateymi. Vid Haudur erum bunar ad rolta um borgina i dag og hun kom mjog anaegjulega a ovart. Ég er búin ad berja mig í hausinn oftar en einu sinni fyrir ad hafa tekist ad týna myndavélinni minni daginn ádur en haldid var íann, en ég aetla ad reyna ad versla mér einhverja ódýra á morgunn.. ég get ekki haldid áfram ad sjá thessa endalaust gedveiku hluti án thess ad skjalfesta thá og deila theim med theim sem vilja. Thad hafur tho komid sér vel ad eiga myndavélasíma, thott thaer myndir geri Quito ekki god skil. Ég er strax ordin brún á theim stodum sem sáu sólina, og ég býst vid ad hárid sé farid ad lýsast. Ég aetla samt ad passa mig ad enda ekki einsog hún Haudur mín sem er skadbrunnin og flognud greyid eftir ad hafa sofnad í bát á leidinni frá Titicaca-eyjunum.
Á morgun aetlum vid ad kikja á ferdaskrifstofu til ad fá gód ferdarád, thvi ad ollum líkindum aetlum vid ad fara og skoda strendurnar, sem eru víst stórkostlegar.
En ah.. thad er ekki vaenlegt ad vera ljóshaerdur á Carnivali. Vid Haudur hofum verid svoleidis spreyjadar nidur í jordina med gulu, hvítu, og bleiku froduspreyi og bombadar med vatnsblodrum, ad thad er ekki thurr blettur eftir á okkur (tha sérstaklega Haudi). Fólkid hérna er líka mjog duglegt ad vara mann vid ef theim finnst madur ekki vera ad passa toskurnar sínar nogu vel, gott ad vita ad folk passar upp á mann.
Viid klifum daudagongu upp í einn kirkjuturn yfir brakandi trébrú og óhuggulega stiga, en thegar upp var komid hofdum vid ótrulegt útsýni yfir Quito. Og thad verdur ad segjast ad borgin er ótrúlega falleg. Byggd á milli hárra fjalla og innan um haedir og hóla.

Ég er líka komin med nýtt símanumer. Man thad ekki núna, en thad kemur kannski einhverntíman.

Ciao, Salóme

Saturday, February 17, 2007

Karnival og vatnsblodrur

Jaeja, nuna er eg laus vid felagsskap. En ja, New York var geggjud og thad er paeling hvort eg eigi ekki bara ad breyta heimleidarmidanum minum og hitta Juliu thar i almennilegan turistatur i nokkra daga. I fluginu a leidinni ut sat eg vid hlidina a kana sem nemur arkitektur vid Yale og honum tokst ad lata daeluna ganga alla leidina um thad hvernig hus eru byggd i Ameriku... thetta var nett langt flug.
En ja, mer list otrulega vel a Otavalo. Eg by nuna med hinum sjalfbodalidunum a einskonar farfuglaheimili af thvi ad nuna er Karnival og enginn skoli. Nuna rikir einskonar stridsastand vegna Karnivalsins og madur er i stodugri haettu thegar madur gengur a milli husa vegna thess ad vid hvert gotuhorn leynast krakkar med vatnsblodrur eda frodubyssur, tilbunir ad skella manni i goda sturtu.. eg hef enn sem komid er sloppid vid froduna, en eg hef matt fleygja mer i skjol undan vatnsblodruregni nokkrum sinnum.
Markadurinn flaedir lika um goturnar nuna, thvi thad er helgi, og hann gerir baeinn litrikari en nokkud sem eg hef adur sed. Frumbyggjakonurnar herna eru svo litlar ad thaer na mer varla upp ad olboga, og eg er ekki ad ykja. Faestar na mer upp ad oxlum. Kallarnir eru lika allir med sidar svartar flettur nidra bak, og reyna sitt besta til ad segja "hello" thegar eg geng hja.
Eitt thad skemmtilegasta finnst mér vera oskubillinn sem kemur a hverjum degi. Hann keyrir um goturnar og spilar spiladosalog svo ad madur viti ad hann se ad koma og geti farid ut med ruslid sitt.

Manudaginn 26. fer eg svo til samfelagsins Tocagón ad kenna ensku. Hver sjalfbodalidi fer i sitt litla samfélag og byr thar og kennir ensku. I thessum samfelogum er tho ekki tolud spaenska, heldur tungumal frumbyggjanna sem er allt allt odruvisi en spaenska, og ad sogn hinna sjalfbodalidanna mjog erfitt. Eg aetla tho ad gera mitt besta til ad laera baedi spaenskuna og frumbyggjamalid sem eg man ekki alveg hvad heitir.. Kwitce minnir mig, eda eitthvad i tha attina. En tharna mun eg bua a virkum dogum, en kem svo aftur til Otavalo um helgar thar sem eg kemst a netkaffi og get heilsad upp a ykkur.

Hasta pronto,
Salóme

Thursday, February 15, 2007

Komin!

Jaejah, tha er eg komin a afangastad. Baerinn litur mjooog vel ut, endalaust mikid af litlum bornum i litrikum blussum og gomlum monnum i ponsjoum med hatta. Thau voru tvo sem sottu mig i morgum og fylgdu mer til Otavalo, hun er farin ad sofa, en hann situr a eldhuskolli vid hlidina a mer a thessu blessada netkaffi og starir a skjainn. Eg man ekki einusinni hvad hann heitir.. eda hun. Thad bydur upp a nokkur vandraedaleg moment i nainni framtid.
Eg er buin ad reyna ad segja honum ad eg verdi frekar lengi i tolvunni og hann megi alveg fara, en hann laetur ekki segjast. Haudur er a leidinni til Ekvador, og eg bid i stanslausum spenningi.
Vid forum adan og keyptum lak a rumid mitt. I nott er eg ad fara ad sofa a bleiku rumi med hvitum doppum og dalmatiuhundum.

Eg meika thetta ekki lengur, eg verd ad haetta i tolvunni, thessi gaeji er alveg ad fara med mig..
Annars er thetta land ruglad fallegt.

Thangadtil eg er ein..
Shalom

Tuesday, February 13, 2007

Ahh..

Nu sit eg med espresso i hendi vid gluggann a 17. haed eins risakljufanna i fjarmalahverfi Manhattan. Fokk, hvad eg er veraldarvon. Gauti er ad fara i vinnuna i sedlabankanum, og eg aetla adeins ad rolta um. Ground zero er svo gott sem herna vid hlidina mer og goturnar eru fullar af aedislegu folki i jakkafotum.
Heimurinn kallar, vildi bara kasta kvedju..

-Salo i Ameriku

Sunday, February 11, 2007

Stórt er spurt

Jæja, það er að koma að þessu. Klukkan er hálf fimm aðfaranótt sunnudagsins 11. febrúar, og því aðeins einn dagur til stefnu. Fólk segir að tíminn líði hratt. Síðustu vikur hef ég ekki verið sammála fólki.

Ég verð að biðjast formlega afsökunar á því að hafa ekki haldið kveðjupartý. Fólk er almennt ekki sátt. Ég þar á meðal. En ég afréð að mamma réði ekki við álagið sem gæti fylgt partýstandi. Mamma er ótrúlega ó-partýsinnuð, og segir hluti eins og; "Æ, ég nenni ekki á Edduna" og "Æ, Salóme ég ætla bara að sleppa því að fara með honum pabba þínum á þessa árshátíð í Lundúnum"
Mamma tilkynnti það hátt og skýrt á sínum tíma að hún ætlaði sér nú að leggjast í afneitun, og myndi halda því ástandi þangað til hún neyddist til að takast á við sannleikann á flugvellinum. Upp á síðkastið er þó veruleikinn farinn að grípa örmum sínum um hana öðru hvoru sem gerir það að verkum að eina stundina er mamma hlæjandi, brosandi, og þá næstu brestur hún í grát. Þó líða aðeins nokkur andartök áður en hún er aftur komin í samt horf. Eins og ekkert hafi í skorist.

Það er vegna þessara geðklofaeinkenna móður minnar sem ég ákvað að veifa rétti mínum til kveðjupartýs.
Annars veit ég ekki um neinn annan sem hefur flutt til útlanda án þess að halda kveðjupartý.
Hm.

Núna held ég á 200 dollurum í vinstri.


Ég er orðin óhuggulega góð í þessum landafræðileik. Gellan er að skora upp í 98%.
Ég tapaði í gettu betur áðan.
Á ég eftir að sakna ykkar?

Sunday, January 28, 2007

Myndamaður

Pabbi var að benda mér á það að bærinn sem ég er að fara að búa í er bara 25 km frá miðbaug (sem er tæplega vegalengdin frá MH út á Kjalarnes). Það þýðir að í kringum hádegi þann 21. mars (og líklega einnig dagana í kring) mun ég ekki mynda neinn skugga. Sólin verður beint yfir kollinum á mér.
Það finnst mér svalt..


Já, svo var ég að rekast á síðuna hans Noah Kalina:






Þessi maður hefur tekið mynd af sér á hverjum degi í 7 ár. Hérna er hægt að sjá síðastliðna 6 mánuði.
Það finnst mér merkilegt..

(15 dagar)

Saturday, January 20, 2007

Ókei, kominn tími á smá lélega stærðfræði.

  • Í dag er tæknilega 20. janúar (klukkan er hálf þrjú að nóttu til)
  • Þegar mánaðardagarnir eru orðnir tveggja stafa tala sem byrjar á 2 eða 3 er mánuðurinn alveg að verða búinn og næsti mánuður er eiginlega bara svo til byrjaður.
  • Ég fer 12. febrúar, sem er eiginlega svona alveg í byrjun febrúar (ef maður er ótrúlega lélegur í stærðfræði og hundsar þá staðreynd að það eru bara 28 dagar í febrúar)
  • Þannig að ég er í rauninni bara að fara rétt strax!


..Dæmalaust alveg hvað tíminn getur liðið hratt.

Sunday, January 7, 2007

Aðgerðarleysi

Ég er ekki í skóla, og ég er atvinnulaus. Það hljómar fyndið.
Á morgnana þegar hinir krakkarnir smella á sig skólatöskunum, setja upp gleraugun og hlusta á kennara kenna, þá er ég sofandi. Ég sef skringilega og ekki sérlega mikið, en samt finnst mér ég alltaf vera sofandi. Þegar ég er ekki sofandi liggur í mér þessi stöðuga sektartilfinning sem ýtir á mig að sinna heimanáminu. Tilfinning sem hefur verið alin upp í mér frá því í svona.. fjórða bekk. Ég var hinsvegar orðin afbragðsgóð í að hundsa þessa tilfinningu, alveg þangað til hún náði í skottið á mér í lok hverrar annar -í desember varð hún sterkari en nokkru sinni áður og er ennþá að naga mig í bakið. Líkaminn er svo ótrúlega vanur þessu að þótt ég viti sjálf að það hangi engin verkefni yfir mér, er samviskubitið orðin rótgróinn undirtónn í flestum vökustundum mínum.

Það sem ég geri á daginn:

Prjóna
Spila á selló (ég myndi líkja sellógetu minni við getu fimm ára barns)
Spila á gítar
Spila á þverflautu
Spila á blokkflautu
Spila á panflautu
Spila á hljómborð (eldgamla casio gaurinn)
Spila á sílafón
Tölvast
Sjónvarpast
Ekkert

Ég vorkenni rosa mikið fólkinu í húsinu mínu því ég er hreinræktaður glamrari.


Ég ætla samt að reyna að bæta við "Nota tannþráð" á listann. Tannlæknirinn minn var nefnilega að segja mér það að ég er komin með skemmd. Ég hef aldrei fengið skemmd áður og því hræðist ég 19. janúar af öllu afli. Ef einhver vill koma með hugreystandi tannlæknasögur verð ég mjög glöð. Ef einhverjum finnst fyndið að hræða mig meira verð ég leið.

Thursday, January 4, 2007

Upphafið

Jæja. Það fer að líða að þessu. Hér höfum við fyrstu færsluna á þetta svæði sem mun gegna því hlutverki að tengja mig við umheiminn, ykkur.. Íslendingana mína. Ef ætlunarverkið heppnast og ég stend mig, þá eigið þið eftir að getað lesið hér um líf mitt og ævintýr í henni Suður Ameríku. Ég er rosalega mikið að treysta á það að ég hafi einhvern aðgang að tölvum þarna í bænum mínum. Það getur ekki annað verið en að það reddist, ef enga tölvu verður að finna í húsinu mínu.
En það eru semsagt 39 dagar í það að ég haldi af landi brott. Ég flýg frá Keflavík til New York þann 12. febrúar. Flugið mitt til Ekvador fer þó ekki fyrr en þann 14., svo ég fæ að gista hjá Gauta og Helimu (bróður Völu mágkonu og konunni hans) þessar tvær nætur. Ég er mjög spennt fyrir New York, þótt ég nái tæpast að drepa niður fæti áður en ég þarf að halda áfram. Eftir stutta viðkomu í Houston lendi ég í Quito, höfuðborg Ekvador, þar sem ég gisti nóttina áður en haldið verður til Otavalo, bæjarins míns, 0,13° norðan við miðbaug. Í Otavalo búa mestmegnis frumbyggjar Ekvador, en hann er víst líka eitthvað frægur fyrir risastóra markaðinn sem hefur verið þar frá því fyrir tíma inkanna.

Fyrir þá sem enn eru óvissir á tilgangi þessarar ferðar, þá er ég að fara sem sjálfboðaliði á vegum samtakanna Cielo Azul. Ég er semsagt að fara að kenna ensku í einhverjum af þeim mörgu undirmönnuðu og fátæku skólum sem eru þarna á svæðinu. Mamma og pabbi (sem eru meira en lítið stressuð yfir þessu öllu saman) eru þó búin að vera að reka nettan hræðsluáróður hérna heima síðustu dagana. Þau hafa verið að gantast með það að þetta gæti nú bara allt eins verið eitt heljarstórt svindl og peningaplokk, pabbi nefndi það meira að segja hvað það væri nú fyndið ef að ég kæmi loks til Otavalo, og þar væri ekkert. En ég læt þetta sem vind um eyru þjóta.
..ef þau hefðu í hyggju að ræna mig, þá væri þetta ekki frítt!

Hér með lýkur fyrstu færslu Salóme

E.s. Nafnið salómelóme kemur úr óperu sem samin var um mig í Grikklandi. Ég hvet aðra til að gera slíkt hið sama (semja um mig óperur).